Translate to

Saga félagsins

Verkalýðs- og sjómannafélag Kaldrananeshrepps, Drangsnesi

Drangsnes. Drangsnes.

Verkalýðsfélag Kaldrananeshrepps, eins og félagið hér í upphafi, var stofnað 17. júní 1934 í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var Guðmundur Guðni Guðmundsson og varð hann fyrsti formaður þess.

Á Drangsnesi hefur vélbátaútgerð og fiskvinnsla verið undirstaða þéttbýlis. Eins og á öðrum þéttbýlisstöðum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi hafa skipst á skin og skúrir í atvinnu og afkomu fólks og fyrirtækja á staðnum, allt eftir því sem fiskigengd, markaðsmál og stjórnmál hafa þróast bæði innan lands og utan.

Verkalýðsfélagið fór rólega af stað, en árið 1935 gerðu verkamenn sem unnu við vegagerð í hreppnum verkfall til að fá sömu laun fyrir vinnu sína og verkamenn annarsstaðar á landinu. Þeir fengu greidda 90 aura á tímann, en vegagerðarmenn í Kaldrananeshreppi, sem aðallega voru bændur, fengu 75 aura. Undir merkjum verkalýðsfélagsins náðu verkamenn fram sínum kröfum. 

Á Drangsnesi voru atvinnurekendur alls ráðandi, eins og víðar, og margir hræddust atvinnukúgun ef þeir gengju fram fyrir skjöldu í verkalýðsbaráttunni. Árið 1936 var verkalýðsfélaginu neitað um samkomuhúsið til fundahalds og var þá haldinn fundur í hálfbyggðu húsi eins verkamanns, Halldórs Jónssonar frá Asparvík. Einn atvinnurekandi reyndi að komast inn á fundinn og hafa áhrif á umræður þar, en var vísað frá. Sagt var að Halldór hafi átt erfitt með að fá vinnu á Drangsnesi fyrst á eftir. Í kjölfar slíkra deilna við atvinnurekendur gekk verkalýðsfélagið í Alþýðusamband Íslands árið 1937. Það gekk síðar einnig til samstarfs við önnur félög í Alþýðusambandi Vestfjarða.

Nokkrir af formönnum félagsins hafa verið:

  • Guðmundur Guðni Guðmundsson,
  • Einar Sigvaldason,
  • Torfi Guðmundsson,
  • Helgi Sigurgeirsson,
  • Magnús B. Andrésson,
  • Kristján Loftsson,
  • Anna Gunnarsdóttir,
  • Ingi Vífill Ingimarsson,
  • Hafdís Baldursdóttir,
  • Haraldur Vignir Ingólfsson,
  • Sigurmunda Ásbjörnsdóttir.

Verkalýðs- og sjómannafélag Kaldrananeshrepps samþykkti haustið 2003 að sameinast Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Félagsmenn voru þá 44; verkafólk og sjómenn á Drangsnesi.

Heimildir

  • Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 78-79.