Translate to

Saga félagsins

Verkalýðs- og sjómannafélag Tálknafjarðar

Tálknafjörður. Tálknafjörður.

Verkalýðsfélag Tálknafjarðar var stofnað 28. nóvember 1935 í barnaskólahúsinu á Sveinseyri. Fyrsti formaður þess var Jóhann L. Einarsson, Tungu. Aðrir í stjórn voru Albert Guðmundsson, Sveinseyri, Knútur Hákonarson, Bjarni E. Kristjánsson og Skúli Guðmundsson. Áður höfðu Albert og Jóhann boðað bréflega til undirbúningsfundar níunda sama mánaðar. Stofnendur voru 41, allt karlar.

Verkalýðsfélagið óx upp með þorpinu í Tungu við Tálknafjörð, sem byggði á útgerð og fiskvinnslu. Albert Guðmundsson var lengi einn helsti fyrirsvarsmaður í kauptúninu og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Tálknafjarðar, auk þess að vera í forystu verkalýðsfélagsins. 

Annar hvati til stofnunar félagsins var uppbygging hvalveiðistöðvar á Suðureyri við Tálknafjörð árið sem félagið var stofnað. Kópur hf. starfrækti hvalveiðistöðina 1935-1939 og gerði samninga um kaup og kjör við verkalýðsfélagið, þar sem var ákvæði um forgang félagsmanna til vinnu. Nokkrar deilur komu upp um vinnu utanhéraðsmanna við stöðina, og kvörtuðu Patreksfirðingar yfir því að nágrannar þeirra vildu ekki hleypa þeim að. Atvinnuleysi lá eins og mara yfir sjávarþorpum um allt land á kreppuárunum og baráttan um vinnuna var oft hörð. Fram kemur í skjölum félagsins að árið 1936 hafi 41 maður haft vinnu við stöðina á Suðureyri, þar af 13 aðkomumenn.

Síðasta stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Tálknafjarðar. Síðasta stjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Tálknafjarðar.

Verkalýðsfélag Tálknafjarðar gekk í Alþýðusamband Íslands í janúar 1936 en sagði sig úr sambandinu með bréfi í desember 1939. Stóð það í tengslum við stjórnmáladeilur innan sambandsins þegar félög sem sósíalistar og sjálfstæðismenn réðu stóðu að stofnun Landssambands íslenskra stéttarfélaga við hliðina á Alþýðusambandi Íslands. Kaus félagið tvo fulltrúa á stofnþing hins nýja sambands haustið 1939. Varð þetta, ásamt öðru, til þess að skipulagi Alþýðusambandsins var breytt þannig að það var ekki tengt Alþýðuflokknum með beinum hætti eftir 1942. Verkalýðsfélag Tálknafjarðar var tekið aftur í ASÍ 12. júlí 1944.

Tálknfirðingar stóðu nokkuð sér í hópi verkalýðsfélaga á Vestfjörðum um tíma og tóku ekki þátt í samstarfi þeirra. Áður var kaupgjald misjafnt milli félaga á Vestfjörðum og má taka sem dæmi árið 1946 þegar félagið gerði samning við helstu atvinnurekendur í firðinum, Kaupfélag Tálknafjarðar og Hraðfrystihús Tálknafjarðar. Samkvæmt samningnum var tímakaup karla kr. 2,30, kvenna kr. 1,85 og unglinga kr. 1,50. Eftirvinna var greidd með 25% álagi og nætur- og helgidagavinna með 75% álagi á dagvinnukaup. Baldur á Ísafirði samdi sama haust um að almennt verkamannakaup karla hækkaði úr kr. 2,45 í 2,65 á tímann og kvenna úr kr. 1,75 í 1,89. Eftirvinna væri greidd með 40% álagi og nætur- og helgidagavinna með 100% álagi. Síðar tók Verkalýðsfélag Tálknafjarðar fullan þátt í sameiginlegum samningum félaganna á Vestfjörðum undir merkjum Alþýðusambands Vestfjarða. 

Tálknafjörður um jól 1999, af vef Tálknafjarðarhrepps. Tálknafjörður um jól 1999, af vef Tálknafjarðarhrepps.

Verkalýðsfélag Tálknafjarðar stofnaði bókasafn árið 1937 og starfrækti um áratugaskeið. Á félagsfundi í desember 1985 var samþykkt að afhenda safnið Táknafjarðarhreppi. Gjafabréf var afhent í janúar árið eftir og í sama mánuði afhenti sveitarsjóður félaginu að gjöf húseignina Þinghól, þar sem komið var upp fundaaðstöðu og skrifstofu fyrir félagið.

Formenn félagsins hafa verið

  • Jóhann L. Einarsson
  • Sigurður Ág. Einarsson
  • ---
  • Kristján Hannesson
  • Einar Brandsson
  • Páll Guðlaugsson
  • Agnar Sigurbjörnsson
  • Jóhann Eyþórsson
  • Þorsteinn Stefánsson
  • Hreggviður Davíðsson
  • Guðjóna Ólafsdóttir
  • Lúðvík Th. Helgason
  • Höskuldur Davíðsson
  • Ásta Jakobsdóttir
  • Birna Benediktsdóttir
  • Kristín Ólafsdóttir

Sjómannadeild var stofnuð innan félagsins í október 1978 og starfaði hún til 1984. Frá árinu 1979 nefndist félagið Verkalýðs- og sjómannafélag Tálknafjarðar. Félagið samþykkti inngöngu í Verkalýðsfélag Vestfirðinga árið 2003 og gerðist frá þeim tíma deild í sameiginlegu félagi. Félagsmenn voru þá 41, 14 konur og 27 karlar, verkafólk, sjómenn og verslunarmenn.

Heimildir

  • Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum, deild 43.
    Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 95-96.