Translate to

Saga félagsins

Verkalýðsfélagið Skjöldur, Flateyri

Flateyri. Flateyri.

Verkalýðsfélagið Skjöldur var stofnað á Flateyri 21. desember 1933. Stofnendur voru 12. Fyrsti formaður félagsins var Friðrik Hafberg, en hann gegndi formannsstarfi alls í 22 ár. Aðrir í fyrstu stjórn félagsins voru Halldór Vigfússon, Guðjón Jóhannesson, Jón Fr. Guðmundsson og Sturla Þórðarson.

Á Flateyri hafði áður verið stofnað Verkalýðsfélag Önfirðinga þann 16. október 1926 fyrir forgöngu Björns Blöndal Jónssonar erindreka Alþýðusambands Íslands. Formaður þess var Sveinn K. Sveinsson og stofnendur 22. Félagið átti erfitt uppdráttar og starfaði aðeins í tvö ár. Verkalýðsfélag Önfirðinga átti tvo fulltrúa á stofnþingi Alþýðusambands Vestfjarða í mars 1927, þá Svein K. Sveinsson og Hinrik B. Þorláksson.

Verkalýðsfélagið Skjöldur gerðist meðlimur í Alþýðusamband Íslands og Alþýðusambandi Vestfjarða. Árið 1936 kom upp alvarleg deila milli Skjaldar og annarra verkalýðsfélaga innan Alþýðusambands Íslands vegna vinnu við karfavinnslu á Sólbakka við Flateyri. Verkalýðsfélagið taldi félagsmenn sína eiga forgang til allrar vinnu á stöðinni á Sólbakka, en önnur félög, bæði á Vestfjörðum og jafnvel á Suðurlandi kröfðust þess að fá ákveðið hlutfall af vinnunni fyrir sína félaga. Kreppan var í algleymingi og atvinnuleysi mikið á þessum árum. Verksmiðjan á Sólbakka var rekin af Síldarverksmiðjum ríkisins og þótti mörgum sem fleiri ættu að njóta vinnunnar en heimamenn á Flateyri. Félagar í Skildi stóðu fast á sínum rétti, fólk flykktist í félagið og allt upp í 170 manns mættu á fundum félagsins. Alþýðusamband Íslands hótaði að reka félagið úr sambandinu, ef það gæfi ekki eftir þriðjung af vinnunni til annarra félaga. Að lokum var samið um að aðkomumenn fengju ákveðið hlutfall af vinnu við karfa- og síldarvinnslu á Sólbakka. Meirihluti aðkomufólksins voru konur og gengu þær undir nafninu „prósenturnar". Þær voru „margar ungar og ásjálegar og var að sjálfsögðu vel fagnað af ungum Flateyringum..." segir Hjörtur Hjálmarsson skólastjóri á Flateyri í yfirliti um sögu félagsins frá 1983. Leystist deila Skjaldar og annarra félaga með farsælum hætti og urðu ekki slíkir árekstrar á félagssvæðinu eftir þetta.

Hús félagsins á Flateyri. Hús félagsins á Flateyri.

Barátta verkalýðsfélagsins fyrir bættum kjörum var ekki aðeins bundin kröfum um hærri laun og bættan aðbúnað. Verkalýðsfélagið Skjöldur stóð fyrir stofnun pöntunarfélags árið 1937 sem starfaði um allnokkur ár. Félagið seldi nauðsynjavörur með litlum kostnaði og álagningu til félagsmanna. Pöntunarstjóri var lengst af Hinrik Guðmundsson. Skjöldur átti stóran þátt í byggingu félagsheimilisins á Flateyri bæði með sjálfboðavinnu félagsmanna og fjáröflun svo sem leiksýningu á Skugga-Sveini. Sjúkrasjóði var fljótlega komið upp í félaginu, sem efldist með tímanum.

Verkalýðsfélagið Skjöldur stóð ætíð dyggilega með öðrum félögum á Vestfjörðum við gerð sameiginlegra samninga landverkafólks og sjómanna. Þegar fyrstu sameiginlegu samningar ASV voru gerðir árið 1949 neituðu atvinnurekendur á Flateyri að viðurkenna þá í fyrstu, en eftir að verkfallsboðun var samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu og Kaupfélag Önfirðinga lét undan, gerðu aðrir atvinnurekendur á staðnum það líka.

Með auknum umsvifum í útgerð og fiskvinnslu á Flateyri var formaður félagsins jafnframt gerður að launuðum starfsmanni árið 1970. Bónuskerfi var tekið upp við pökkun og snyrtingu í frystihúsinu árið 1977, eða um líkt leyti og víða annarsstaðar.

Árið 1980 var gerður samningur milli verkalýðsfélagsins, atvinnurekenda og Sparisjóðs Önundarfjarðar um vörslu orlofsfjár. Var þessi nýjung fljótlega tekin upp í samningum ASV, en handbendlar ríkisins reyndu um tíma að koma í veg fyrir þessa ráðstöfun, sem gaf verkafólki margfalt betri ávöxtun á orlofið en áður tíðkaðist. Skjöldur gaf út veglegt afmælisrit í tilefni 50 ára afmælis félagsins árið 1983 og sama ár flutti félagið í eigið húsnæði með skrifstofu og fundaaðstöðu. Félagið var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002. 

Formenn Verkalýðsfélagsins Skjaldar hafa verið

  • Friðrik Hafberg 1934, 1939-1958
  • Jón Magnússon 1935
  • Halldór Vigfússon 1936-1938
  • Hermann Kristjánsson 1959
  • Einar Hafberg 1960-1963
  • Kristján V. Jóhannesson 1963-1967, 1968-1970
  • Benedikt Vagn Gunnarsson 1967-1968
  • Guðvarður Kjartansson 1970-1971
  • Hendrik Tausen 1971-1980
  • Björn E. Hafberg 1980-1981
  • Björn Ingi Bjarnason 1981-1984
  • Gunnar Valdimarsson 1985-1987
  • Jón Guðjónsson 1987-1989
  • Sigurður Þorsteinsson 1989-1995
  • Guðmundur Sigurðsson 1996-1997
  • Ágústa Guðmundsdóttir 1997-2002

Heimildir

  • Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 37.
  • „Verkalýðsfélagið Skjöldur, Flateyri." Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 66-67.
  • Afmælisrit Verkalýðsfélagsins Skjaldar 50 ára. Flateyri (1985).
  • - Hjörtur Hjálmarsson, „Verkalýðsfélagið Skjöldur 50 ára." Bls. 5-27.
  • - „Stjórnarmannatal Verkalýðsfélagsins Skjaldar 1933-1983." Bls. 32-42.